Skoðun

Bráðabirgðalækningar Kristins H.

Tillögur Kristins H. Gunnarssonar um uppstokkun kvótakerfisins - Örvar Marteinsson smábátasjómaður. Á sjómannadaginn sagði þingmaður Framsóknarflokksins, Kristinn H Gunnarsson, í ræðu sinni á Patreksfirði að rétt væri að stokka fiskveiðistjórnkerfið rækilega upp. Einnig að hann teldi að 20 þúsund tonna kvóta ætti að ráðstafa til sjávarbyggða sem standa höllum fæti. Enn fremur sagði hann að kvótakerfið væri kerfi sem gerði nýliðun í greininni afar erfitt fyrir. Gott og vel. Um fiskveiðistjórnkerfi það sem Íslendingar búa við eru skiptar skoðanir en flestir eru þó sammála um að veiðunum verði að stjórna og þá dugi ekki eitt í dag og annað á morgun. Rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, hvort sem þau eru stór eða smá, byggist að stóru leyti á því að hægt sé að horfa til framtíðar, vissu fyrir að fjárfesting sé ekki til einskis og að hægt sé að skapa nægileg verðmæti með fjárfestingunni til að hafa fyrir fjármagnskostnaði og launum. Ef Kristinn telur að kvótakerfið geri nýliðun erfitt fyrir þá ætti hann að athuga hvað tillögur þær sem hann kastar fram gera þeim sem eru að reyna að byrja útgerð. Segjum að tillögur um 20 þúsund tonna sérstakan aðstoðarkvóta nái fram að ganga. Þá þýðir það að til þess þurfi rúm tíu prósent af ráðlögðum kvóta næsta kvótaárs (byggðakvóti hefur yfirleitt verið talinn í þorski). Það þýðir að auk skerðingar þeirrar sem Hafró hefur lagt til rýrnar kvóti þeirra sem stunda útgerð um rúm tíu prósent. Hafi einhver byrjað rekstur báts nú í vetur og keypt sér 100 tonna kvóta mun fjárfesting hans rýrna fyrst um 3,5 tonn (til verndar stofninum) og svo um tíu tonn að auki. Hann hefur þá tapað u.þ.b. sextán milljónum á einum kvótaáramótum, þar af um þrettán vegna byggðakvóta Kristins. Það er varla hvetjandi til nýliðunar. Víða eru sjávarbyggðir í vanda staddar og þar spilar hátt gengi krónunnar stórt hlutverk. Uppbygging stóriðjunnar skapar vissulega vandamál. Hins vegar væri það röng stefna að hamla uppgangi í einni byggð til að önnur haldi í horfinu. Eins eru hugmyndir um að taka tíu prósent af úthlutuðum kvóta af einum til að gefa öðrum ekki til þess fallnar að leysa vanda sjávarútvegsins. Það er eins og að lækna höfuðverk með því að höggva hausinn af. Það er nefnilega vandséð að þær byggðir sem standa betur en þær sem Kristinn vill bjarga þoli tíu prósent skerðingu ofan á það sem Hafró leggur til. Sennilegast yrði bráðabirgðalækning Kristins frekar til þess að sjúklingunum myndi fjölga verulega. Í Fréttablaðinu 10. júní spyr Kristinn hvort það sé eðlilegt að allur kvóti fari frá Stöðvarfirði til Dalvíkur eða frá Ísafirði til Akureyrar og hvort það sé lögmál sem ekki megi hrófla við. Það er það ekki og getur eins farið á hinn veginn. Það eru hins vegar lög að ef maður í Borgarfirði kaupir kvígu frá Skagaströnd þá verður hún ekki af honum tekin og flutt aftur norður ef illa árar í búskap þar. Það hamlar nýliðun í sjávarútvegi ef sá sem kaupir togara, vertíðarbát eða trillu og aflaheimildir til að reka sitt fyrirtæki, hefur alltaf hangandi yfir sér að fjárfestingin verði tekin í burt og sjáist aldrei aftur.



Skoðun

Sjá meira


×