Viðskipti innlent

Eignarhald enn óljóst

"Ég eða félög mér tengd eigum ekkert í Serafin Shipping og höfum aldrei átt," segir Jón Kristjánsson, stjórnarformaður Icelandic Group, spurður um hver ætti félagið. Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa, vísaði á Jón þegar hann var spurður í fyrradag hvort hann ætti eða hefði átt Serafin Shipping. Icelandic Group varð til þegar Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna (SH) sameinaðist Sjóvík fyrir stuttu. Serafin Shipping átti í Sjóvík og fengu eigendur félagsins tæp sex prósent hlut í Icelandic Group við sameininguna. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var hlut Serafin Shipping í Icelandic Group skipt á tvö félög; Fordace Limited sem fékk 4,47 prósenta hlut og Deeks Associates Ltd. með 1,49 prósenta hlut. Fari hlutur í félagi yfir fimm prósent þarf að gera grein fyrir eigendum þess með tilkynningu til Kauphallar Íslands. Ekki hefur fengist staðfest hver varð sjötti stærsti hluthafinn í Icelandic Group eftir sameiningu. Ólafur Ólafsson sagðist í samtali við Fréttablaðið í fyrradag ekki kannast við Fordace Limited, sem var á lista yfir tíu stærstu hluthafana.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×