Viðskipti innlent

KB banki ekki í stofnfjárkaupum

Kaupþing banki tengist ekki á nokkurn hátt uppkaupum á stofnfé í Sparisjóði Hafnarfjarðar, að sögn Hreiðars Más Sigurðssonar forstjóra bankans. Eins og fram kom á sínum tíma hafði Kaupþing banki áhuga á kaupum á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis en komið var í veg fyrir það með lagasetningu. Hreiðar Már segir að að bankinn hafi engar viðræður átt við stofnfjáreigendur í Sparisjóði Hafnarfjarðar og heldur ekki við stjórnendur hans. Samkvæmt heimildum Ríkisútvarpsins hafa 30 af 47 stofnfjáreigendum Sparisjóðs Hafnarfjarðar þegar selt hluti sína í sjóðnum fyrir mörg hundruðfalt nafnvirði eftir að nýr meirihluti komst til valda í stjórn sjóðsins nýverið, en hinir nýju stjórnendur verjast allra fregna af gangi mála. Helgi Jóhannesson, einn af stofnfjáreigendum í sjóðnum, segir að enginn hafi falast eftir sínum hlut enda sé han sjálfsagt talinn af gamla skólanum, sem leit á þáttöku sína í sjóðnum sem stuðning við stjórnendur en ekki fjárfestingu. Án þess að vita það nánar detti honum í hug að hinir nýju stjórnendur sjóðsins séu með þessu að gera hann að fýsilegri söluvöru til stórra banka eða sjóða.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×