Innlent

3 ár og milljón í skaðabætur

Rúmlega fertugur karlmaður var dæmdur í þriggja ára fangelsi í dag fyrir að nauðga fyrrverandi sambýliskonu sinni. Honum var jafnframt gert að greiða henni eina milljón króna í skaðabætur. Manninum var gefið að sök að hafa í júlí á síðasta ári veist að fyrrverandi sambýliskonu sinni með ofbeldi á heimili hennar, rifið hana úr fötunum, stungið salernispappír í leggöng hennar og þvingað til samræðis. Meðal annarra áverka þurfti að sauma níu spor í sprungu við legggangaop hennar. Auk þess var hann ákærður fyrir brot á lögum um fíkniefni og ölvunarakstur. Maðurinn neitaði sök en dómurinn taldi framburð konunnar bera þess glögg merki að hún hafi orðið fyrir erfiðri lífsreynslu umrætt kvöld og áverkar og réttarlæknisfræðileg skoðun komi heim og saman við lýsingu hennar. Héraðsdómur Reykjavíkur taldi því sannað að atburðarrásin hafi verið eins og konan lýsti og að maðurinn ætti sér engar málsbætur. Við mat á refsingu bæri að líta til þess að atlaga hans að konunni hafi verið langvinn, þar sem hún var svipt kynfrelsi sínu, og hún hafi hlotið alvarlega líkamlega áverka af. Hann var því dæmdur í þriggja ára fangelsi og til að greiða sambýliskonu sinni fyrrverandi eina milljón króna í skaðabætur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×