Viðskipti erlent

Lækkandi olíuverð

Olíuverð hefur lækkað á ný eftir að hafa farið upp í sextíu dollara á fatið á heimsmarkaði. Sérfræðingar telja þó víst að þetta vari ekki lengi og að verðið fari upp í sextíu og fimm dollara þegar í næsta mánuði. Í morgun stóð fatið í fimmtíu og átta dollurum. Í dag er að vænta tíðinda af olíubirgðum í Bandaríkjunum sem munu að líkindum hafa töluverð áhrif á verðþróunina, auk þess sem fréttir hafa borist af því að olíuhreinsunarstöðvar starfi nú á methraða. Ennfremur er búist við því að hátt eldsneytisverð hafi slegið nokkuð á eldsneytisnotkun, sem hefur aftur á móti áhrif á verðið. John Snow, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, segir olíuverð nú þegar svo hátt að dregið hafi úr hagvexti á heimsvísu um allt að hálft prósentustig. Olíumálaráðherrar OPEC-ríkjanna hittast svo á fundi í þessari viku og er búist við því að þeir ákveði framleiðsluaukningu um hálfa milljón tunna á dag. Skammt er síðan að OPEC ákvað sambærilega framleiðsluaukningu sem sló þó ekkert á verðið. Fréttastofan Bloomberg hefur eftir sérfræðingum á olíumarkaði að eftirspurn eftir eldsneyti vaxi enn og verði yfir árið líklega um tvö prósent. Þetta þýði enn meiri hækkun og að líkast til verði fatið komið upp í sextíu og fimm dollara í júlí.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×