Skoðun

Klámvæðingin heldur áfram

Aukin klámvæðing á Íslandi - Kristín Tómasdóttir sálfræðinemi Átta ára vinur minn kom alsæll heim af fótboltanámskeiði í dag með fótboltablað meðferðis. Ég fletti "áhugasöm" í gegnum blaðið sem virtist fullt af fróðleik um fótbolta. Á síðustu blaðsíðunni rak ég upp stór augu en þar birtist heilsíðuauglýsing fyrir nektarstaðinn fræga Goldfinger þar sem boðið er upp á stúlkur (líkt og um nautasteik væri að ræða) og flott koníak. Mér ofbauð og ekki í fyrsta sinn. Strippstaðir eru niðurlægjandi fyrir konur. Strippstaðir selja líkama kvenna í þeirri merkingu að karlmenn borga fyrir að sjá í bert holdið. Þetta er staðreynd sem mér finnst þessi þjóð ekki gera sér grein fyrir. Þetta er staðreynd sem alþýðan sættir sig bara við. Ég dauðskammast mín fyrir það að litla Ísland geti ekki verið sjálfstæðari en svo að strippstaðir teljist sjálfsagðir veitingastaðir og fullkomlega eðlilegur hluti af samskiptum kynjanna. Það þarf enginn að segja mér það að þetta blað hefði ekki komist í prentun nema með innkomu auglýsingaverðs Goldfinger auglýsingarinnar. Fótboltablað. Hver er markhópurinn? Karlmenn yfir 22 ára? Já, mögulega en einnig drengir og stúlkur undir 22 ára! Átta ára vinur minn kann að lesa, hann les fótboltablaðið sitt upp til agna og hvaða skilaboð fær hann? Jú, það er ósköp eðlilegt að borga pening fyrir það að sjá nakta konu og fá sér svo koníak í kaupbæti. Ég veit ekki hversu oft ég hef þurft að reka það ofan í fólk að dreifing á klámi er bönnuð með lögum á Íslandi. Hvernig í ósköpunum stendur á því að fjölmiðlar fjalla um dreifingu Skjás eins á klámi og svo er það bara búið mál og Skjár einn mun eflaust dreifa klámi eins lengi og sjónvarpsstöðinni hentar að dreifa klámi. Klám er ofbeldi. Klám sýnir oftar en ekki valdaníðslu karla gagnvart konum, óheilbrigt kynlíf, niðurlægjandi framkomu og ranga sýn á kynhvöt karla og kvenna. Fórnarlömb vændis hafa sagt að vændi sé eitt, en um leið og vændið sé komið í dreifingu og líkaminn og athafnir dreifast um veraldarvefinn án þess að nokkur ráði neitt við neitt þá sé staðan orðin óbærileg. Konur hafa enga þörf fyrir það að selja líkama sinn. Það velur sér engin kona að selja líkama sinn nema hún sé búin að missa alla virðingu gagnvart honum af einhverjum ástæðum eða í neyð. Klám er ein birtingamynd sölu kvenlíkamans og nú ætlar Skjár einn að dreifa því. Baráttan gegn klámi og vændi er einn mikilvægasti vængur jafnréttisbaráttunnar. Til þess að ná jafnrétti hér á landi verðum við að vera meðvituð um allar hliðar, þar með talið klám og vændi. Ég skora á félagsmálaráðherra, eftir kröfugerðina sem hann fékk afhenta hinn 19. júni á Þingvöllum, til þess að taka orð íslenskra kvennasamtaka alvarlega og gera allt sem í hans valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að ríkisfyrirtæki dreifi klámi. Ég skora á Landlækni til þess að láta í sér heyra enda hefur þörfin sjaldan verið meiri en nú til þess að vinna gegn klámvæðingunni. Ég skora á lögregluna, saksóknara og löggjafarvaldið í heild sinni til þess að virða lög okkar um dreifingu á klámi.



Skoðun

Sjá meira


×