Erlent

Eyðileggja ekki lífsmáta okkar

Hryðjuverkamenn fá ekki að eyðileggja lífsmáta okkar segir Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands.  Blair fékk strax fregnir af atburðunum í London og ætlaði í upphafi ekki að fara frá Gleneagles þar sem hann hefur verið á fundi leiðtoga helstu iðnríkja heims. Undir hádegis birtist hann á fréttamannafundi og var augljóslega sleginn. Hann sagði það sérlega villimannslegt að þetta skuli gerast sama dag og menn komi saman til að reyna að leysa vandamál fátækra í Afríku og til lengri tíma litið vandamál sem fylgja loftslagsbreytingum. Og Blair sagði það ljóst að hryðjuverkunum væri ætlað að eiga sér stað við upphaf G8-fundarins Skömmu síðar hélt Blair til Lundúna, til að fylgjast með framvindu mála þar. Hann hitti blaðamenn aftur síðdegis og sagði þá að núna yrðu að sjálfsögðu strangar lögreglu- og öryggisaðgerðir til að tryggt verði að þeir sem beri ábyrgðina verði látnir svara til saka. Ráðherrann hrósaði Lundúnabúum fyrir æðruleysi sitt og seiglu. "Auk þess fagna ég yfrlýsingu sem Breska múslímaráðið hefur sent frá sér. Við vitum að þessir menn framkvæma verk sín í nafni íslams. En við vitum líka að mikill og yfirgnæfandi meirihluti múslíma, bæði hér í landi og erlendis, er löghlýðið fólk sem hefur andstyggð á svona hryðjuverkum ekki síður en við," sagði Blair. Viðbrögðin við atburðunum um allan heim hafa verið á sama hátt: það á ekki að gefast upp fyrir hryðjuverkamönnum sem vilja leggja þau gildi sem opin, vestræn samfélög standa fyrir, í rúst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×