Erlent

Lífið í Lundúnum heldur áfram

Brynhildur Ólafsdóttir, fréttamaður, er í London og hún segir ótrúlegt að meiri háttar hryðjuverkaárás hafi verið gerð í borgina í gær því lítil ummerki eru sýnileg. Hún segir að það sé í við rólegra í borginni en á hefðbundnum föstudegi og ekki að sjá að borgin sé í helgreipum óttans. Lundúnabúar virðast ekki ætla að láta sigra sig svo auðveldlega. Þeir sneru margir hverjir aftur til vinnu í dag staðráðnir í að láta hryðjuverkamenn ekki kveða sig í kútinn. Strætisvagn númer 30 sem var sprengdur í loft upp í gær er aftur kominn í umferð og nú fullur af farþegum. Strætisvagnafarþegi segir að breska þjóðin muni halda áfram og gera það sem hún þurfi að gera. Brynhildur segir að engu sé líkara en eitthvað liggi í loftinu og að fólk sé á varðbergi. Umferð er að mestu komin í lag en þó eru sumar lestarstvöðvar eru enn lokaðar og lögregla fylgist með þeim og öryggisverðir sýnilegri en áður. Lögreglan er litlu nær um það hvers konar sprengjur voru sprengdar í gær og sögusagnir eru um að sjálfsmorðsárás hafi verið í strætisvagninum en yfirvöld vilja lítið segja. Á blaðamannafundi í dag sagði lögreglan að erfitt væri að gefa rétta mynd af tölu látinna. Lögreglan segir það vera vegna þess að vettvangsrannsóknir séu erfiðar og að erfitt sé að finna lík í lestargöngunum. Lögregla og yfirvöld leggja nú mikla áherslu á að finna hryðjuverkamennina sem skipulögðu og frömdu hreyðjuverkin. Sérstök vakt er nú við hafnir og flugvelli og myndir úr öryggismyndavélum verða greinar en það getur tekið tíma því London er líklega mest vaktaða borg veraldar. Yfir fjórar milljónir öryggismyndavéla eru staðsettar í borginni og sá fjöldi gefur vonir um að ódæðismennirnir hafi náðst á mynd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×