Viðskipti innlent

Baugur hættir við

Baugur er hættur þátttöku í fyrirtækjahópi sem vinnur að kaupum á bresku verslunarkeðjunni Somerfield. Í tilkynningu frá félaginu segir að ákvörðunin hafi verið tekin í þágu samstarfsaðilanna í kjölfar þess að Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, og fimm öðrum einstaklingum voru birtar ákærur í Baugsmálinu svokallaða. Hreinn Loftsson, stjórnarformaður félagsins segir að Baugur sé brotaþoli í málinu. Fyrirtækið sé ekki ákært og rannsókn lögreglu snúi ekki að því. Samið hefur verið um að Baugur selji 5,55 prósenta hlut sinn í Somerfield fyrir um 6,5 milljarða króna. Áætlaður hagnaður Baugs af fjárfestingunni nemur um þremur milljörðum króna. Baugur mun samkvæmt samkomulaginu selja hlutabréf sín í Somerfield til félags í eigu eins af hópnum.  Verði af yfirtöku mun hópurinn einnig endurgreiða Baugi þann kostnað sem félagið hefur lagt í vinnu vegna undirbúnings.  Talið er að Baugur muni græða um þrjá og hálfan milljarð á sölu hlutabréfanna í Somerfield, en eins og einn viðmælandi fréttastofu orðaði það í morgun þá er það ekki nema brot af því sem félagið hafði séð fram á í hagnað ef af yfirtöku yrði. Heimildamenn fréttastofu telja að Baugur og bankarnir íslensku sem ætluðu að aðstoða við fjármögnun yfirtökunnar hafi séð fram á um tuttugu milljarða hagnað hið minnsta.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×