Skoðun

Samfélagslegt gildi almannapersóna

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Mikið hefur verið rætt, ritað og deilt um hlutverk fjölmiðla undanfarið. Það varla að rekja upphaf þessa fjaðrafoks hér en djöfulgangurinn hefur aðallega snúist um fréttaflutning tímaritsins Hér&Nú og dagblaðsins DV um nafngreinda einstaklinga og þá hvort viðkomandi geti flokkast sem svokallaðar opinberar persónur og verði því að búa við skert einkalíf.

Persónuvernd hefur blandað sér í málið og hefur meira að segja endurskilgreint opinberu persónuna sem mun væntanlega hér eftir vera "almannapersóna". Persónuvernd gengst við því að almannapersónur "verði að sæta umfjöllun umfram aðra borgara," af hinum ýmsu ástæðum.

Persónuvernd heldur því þó einnig vandlega til haga að þetta þýði ekki að "almannapersónur" eigi ekki rétt á einkalífi. Fréttamenn hafi þó "verulegt svigrúm til þess að vinna með persónuupplýsingar í þágu fréttamennsku þegar umfjöllunarefnið hefur samfélagslegt eða þjóðfélagslegt gildi."

Þarna vandast málið nokkuð þar sem það getur verið býsna fljótandi í hugum fólks hvað hafi "þjóðfélagslegt gildi" og hvað ekki. Handrukkarinn Annþór Kristján Karlsson lítur, til dæmis, væntanlega ekki á sig sem "almannapersónu" og sér líklega ekkert þjóðfélagslegt gildi í opinskárri umfjöllun DV um kauða. Ritstjórn DV er hins vegar á öndverðum meiði og telur afrekaskrá Annþórs eiga full erindi við almenning.

Persónuvernd viðurkennir einnig í áliti sínu að það verði að taka ritstjórnarlega ákvörðun um nálgunarleiðir og birtingu hvers máls fyrir sig. Þetta er allt gott og blessað en hnífurinn mun auðvitað áfram standa nákvæmlega þarna í kúnni og það munu alltaf blossa upp deilur um tiltekin mál. Persónuvernd getur ályktað eins og henni sýnist en það getur ekki flokkast undir hennar hlutverk, né nokkurrar annarrar stofnunnar, að skera úr um hver sé almannapersóna hverju sinni og hvaða mál hafi þjóðfélagslegt gildi.

Þetta eru spurningar sem allar ritstjórnir standa frammi fyrir mörgum sinnum á dag og blaðamaður, frétta- og ritstjóri þurfa að taka siðferðilegar ákvarðanir um birtingu efnis í tíma og ótíma. Áherslur fjölmiðla eru sem betur fer mismunandi og það mun sem betur fer aldrei ríkja sátt um þá alla.

Það sem gerir margar ákvarðanir umdeildar er sú gamla blekking um að fjölmiðlar séu eitthver "fjórða vald" og um þá gildi svipuð lögmál og aðrar opinberar valdastofnanir. Þessi falsmynd byggir á hroka ákveðinna blaðamanna og fjölmiðla. Þeirra sem telja sig yfir aðra hafna í skjóli einhvers óskilgreinds valds og svo auðvitað ofmati almennings sem kýs að kaupa þessa vitleysu. Þessi ranghugmynd lifir sennilega bestu lífi á þeim fjölmiðlum sem eru stofnanir í sjálfum sér; RÚV og Morgunblaðinu. Þeir sem fá út úr því að benda fingrum og bannfæra aðra fjölmiðla fyrir að ganga lengra en stofnanirnar ættu að staldra aðeins við og íhuga hvort þeir vildu virkilega hafast við í dauðhreinsuðu fjölmiðlaumhverfi þar sem þessir tveir pólar væru upphaf og endir allrar umræðu?

Það er ekki, og getur aldrei orðið, raunverulegt hlutverk fjölmiðla að hlífa lesendum eða viðfangsefnum sínum og það verður alltaf einhverjum, einhvers staðar misboðið. Það gæti samt aðeins mildað vandlætinguna ef fólk gerði sér grein fyrir því að fjölmiðlafólk hefur engin völd; það vinnur bara við að segja fréttir en þá vinnu má svo auðvitað leysa misvel af hendi.

thorarinn@frettabladid.is




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×