Sport

Leikir við Venúsúela og Pólland

Íslenska landsliðið mun spila tvo vináttulandsleiki það sem eftir er ársins. Fyrst kemur Venúsúela í heimsókn á Laugardalsvöllinn 17. ágúst og íslenska landsliðið fer síðan til Varsjáar 7. október og spilar við Pólverja. Knattspyrnusambandið hefur samið um vináttulandsleik við landslið Venesúela á Laugardalsvelli 17. ágúst n.k.  Þetta verður fyrsta viðureign þjóðanna en Venesúela er sem stendur í 9. sæti í Suður-Ameríku riðli undankeppni HM. Venúsúela er í 70. sæti á Styrkleikalista FIFA 20 sætum fyrir ofan Ísland. Þetta verður fyrsti landsleikur þjóðanna og 7. landsleikur Íslands gegn Suður Ameríkuþjóð. Þá hefur knattspyrnusambandið einnig samið um vináttulandsleik gegn Pólverjum í Varsjá 7. október.  Pólverjar eru sem stendur í efsta sæti í sínum riðli í undankeppni HM en þeir eru einmitt með Englendingum í riðli og stefnir í hörku lokabaráttu milli þeirra um sigurinn. Pólverjar eru í 23. sæti Styrkleikalista FIFA. Þetta verður fimmti landsleikur þjóðanna og Ísland hefur enn ekki náð að vinna, gert eitt jafntefli og tapað þremur leikjum. Ísland á eftir að spila þrjá leiki í undankeppni HM 2006. Króatar koma í heimsókn á Laugardalsvöllinn 3. september og fjórum dögum seinna fer íslenska liðið til Búlgaríu og spilar við heimamenn. Lokaleikurinn er síðan gegn Svíum 12. október og fer sá leikur fram úti í Svíþjóð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×