Viðskipti innlent

Endurskoða lagalegan grundvöll SÍ

Endurskoða þarf lagalegan grundvöll Seðlabankans og gera hann betur í stakk búinn til að fylgjast með umsvifum manna í viðskiptalífinu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sjóðurinn telur að aðgengi bankans að upplýsingum á fjármagnsmarkaði mætti vera töluvert meiri og að harðari viðurlögum, til að tryggja aðgang bankans að upplýsingum um umsvif manna í viðskiptalífinu, verði hægt að beita. Þannig gæti bankinn haft sem gleggsta mynd af hagkerfinu á hverjum tíma en það hafi hann ekki nú. Nauðsynlegt sé fyrir bankann að hafa sem mestar upplýsingar. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum er hlutverk bankans þó ekki að grennslast fyrir um skattamál manna. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur undanfarna mánuði gert úttekt á opinberri tölfræði þjóðarinnar. Samsvarandi úttekt fór fram á upplýsingagjöf fjármálaráðuneytisins og Hagstofu Íslands en lokaniðurstöðu úr úttektinni er ekki að vænta fyrr en í september. Þá hvetur sjóðurinn til aukinnar samvinnu við alþjóðlegar stofnanir til að bregðast við auknum umsvifum fyrirtækja á erlendri grundu. Samkvæmt Seðlabankanum vill sjóðurinn að skerpt sé á efirlitsþættinum hjá bankanum en einnig hjá Hagstofunni. Mál þetta verður tekið til athugunar og segir einn stjórnandi bankans að líklegt sé að bót verði á.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×