Erlent

Óttast árás á fimmtudag

Breska lögreglan óttast að hryðjuverkamenn hyggi á árásir á ný á fimmtudaginn kemur. Hátt setts al-Qaida manns er nú leitað á Bretlandi þar sem talið er að hann hafi safnað liði til árásanna undanfarið. Hafi lögreglan rétt fyrir sér þykir það benda til þess að fleiri hópar hryðjuverkamanna séu að störfum í Bretlandi og undirbúi árásir. Ian Blair, lögreglustjóri í Lundúnum, varaði í gærkvöldi við hættunni á frekari árásum. Sunnudagsblaðið Observer hefur eftir heimildarmönnum að talið sé að í það minnsta einn hátt settur stjórnandi í al-Qaida sé í Bretlandi. Sá er talinn hafa tekið þátt í siglingu í Wales með nokkrum af hryðjuverkamönnunum í byrjun júní á þessu ári. Talið er að hann hafi safnað liði í nokkra sjálfstætt starfandi hópa sem þekkist ekki endilega innbyrðis. Hátt settir lögreglumenn hafa af því miklar áhyggjur að á fimmtudaginn kemur, hálfum mánuði eftir síðustu hrinu árása, verði á ný gerðar árásir á almenningssamgöngur í Lundúnum. Bent er á að það samrýmist aðferðafræði al-Qaida: ráðist hafi verið á tvíburaturnana í tvígang, sama gildi um sendiráð í Egyptalandi. Sunday Times hefur fyrir því heimildir að hópur herskárra íslamista leggi á ráðin um fjölda sjálfsmorðsárása á svokölluð mjúk skotmörk í Lundúnum en almenningssamgöngur eru dæmi um slík skotmörk. Raunar átti þessi árás að fara fram síðasta fimmtudag samkvæmt upplýsingum Lundúnalögreglunnar og því var gripið til öryggisráðstafana: sex þúsund lögreglumenn voru á varðbergi og var aðgerðin sú stærsta síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Hópurinn ku hafa aðgang að miklu magni sprengiefnis og er sagður lauslega tengdur mönnunum sem gerðu tilraunir til hryðjuverka fyrir rúmri viku. Heimildarmaður Sunday Times innan lögreglunnar segir að handtökurnar á föstudaginn séu aðeins toppurinn á ísjakanum og að eftir standi net hryðjuverkamanna sem verði að uppræta. Á næstu mánuðum sé mikilla tíðinda að vænta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×