Viðskipti innlent

Geta aukið útlán um billjón

Eftir skiptingu Burðaráss milli Landsbankans og Straums eykst svigrúm Landsbankans til útlána allverulega. Góð uppgjör KB banka og Íslandsbanka skapa einnig hagstæð skilyrði fyrir útlánaaukningu. Viðmælendur Fréttablaðsins telja að bankarnir þrír hafi á skömmum tíma skapað möguleika fyrir aukin útlán fyrir allt að þúsund milljarða króna eða eina billjón. Við sameiningu Landsbankans og Straums jókst eigið fé bankans um 37 milljarða og verður 96 milljarðar eftir og ef bankinn selur eigin bréf. Þó hefur bankinn einnig tekið við eignarhlut í öðrum fyrirtækjum sem kunna að hafa áhrif á aukna útlánagetu svo sem eignarhlut í sænska fjárfestingarbankanum Carnegie og öðrum fyrirtækjum. Ýmsir þættir ráða því hversu mikið útlánageta bankanna getur aukist svo sem áhættusækni útlánanna og samsetning eignaaukningarinnar sem til verður. "Svigrúm bankanna til eignaaukningar eykst vissulega en ég býst ekki við útlánasprenginu hérlendis umfram það sem þegar er orðið," segir Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands. Hann segir þó ástæðulaust að ætla að bankarnir slaki á kröfum sínum um gæði útlána þrátt fyrir þær breytingar sem nú hafa orðið "Þeir hafa getuna en spurningin er til hvers vilji þeirra stendur. Starfsemi íslensku bankanna er orðin mjög fjölþætt og þar af leiðandi hafa þeir marga möguleika hérlendis og erlendis. Þær breytingar sem nú hafa orðið eru mjög ánægjuleg styrking á fjármálakerfinu. Ég mæli með því að bankarnir haldi áfram sterkri eiginfjárstöðu og tek undir það sem fram hefur komið hjá Björgólfi Guðmundssyni um nauðsyn þess að bankarnir séu sem traustastir á komandi árum," segir Tryggvi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×