Viðskipti innlent

Danir hljóma gramir

Baugur, Straumur og fyrirtæki í eigu Birgis Þórs Bieltvedts hafa keypt stórverslunina Illum við Strikið í Kaupmannahöfn en sami hópur keypti nýverið Magasin du Nord þar í borg. Illum er eitt af þekktustu vöruhúsum í Danmörku. Rekstur þessara tveggja vöruhúsa verður alveg aðskilinn þótt þau verði í eigu sömu manna. Kaupverð er ekki gefið upp en seljandi var bandaríski fjárfestingabankinn Merrill Lynch. Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri hjá Baugi, segir að Illum muni einbeita sér að sölu dýrrar merkjavöru en Magasín verði meira með almenna vöru. Dönsk blöð greina frá þessum viðskiptum með ítarlegum hætti í morgun og er ekki laust við að úr textanum megi lesa að Dönum þyki berin súr. Þau orða það meðal annars svo að Íslendingar séu að leggja undir sig öll fínu húsin á Strikinu og hafa eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, að Íslendingar hafi í hyggju að eignast enn fleiri fyrirtæki í Danmörku. Þá þykir Jótlandspóstinum það frásagnarvert að auðjöfurinn Jón Ásgeir hafi ekki einu sinni látiið svo lítið að vera sjálfur viðstaddur kaupin á Illum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×