Skoðun

Okrað á skólavörum

Skólavörur - Eva Ólafsdóttir Hvernig má það vera að í landi þar sem er almenn skólaskylda, sé ekkert þak á álagningu á skólavörur? Ritfangaverslanir og aðrar búðir sem selja skóladót, okra á því eins mikið og þeim þóknast og mokgræða fyrir vikið. Ég man að í fyrra eyddi ég 15.000 kalli í ritföng fyrir tvær dætur mínar, og það voru bara blöð, stílabækur og skriffæri sem þær vantaði upp á, af því þær voru að koma inn í skólann á miðjum vetri. Í alvöru talað, hvað haldið þið að blýantur kosti í framleiðslu? Eða nokkur lausblöð eða plastmappa? Nú er yngsta dóttir mín að byrja í skólanum og þurfti auðvitað að fá sína skólatösku og tilheyrandi. Bara taskan kostaði yfir 8000. Af því að ég vildi almennilega tösku með góðu baki og axlarólum, en allt undir þessu verði voru bara einhverjar pokatuðrur. Bara pennaveskið (sem reyndar innihélt liti, blýanta o.s.frv.) kostaði 2000 kall! Og það var sko ekki það dýrasta. Og enn er blaða- og stílabókadótið ótalið. Þetta stefnir þessvegna hátt í 20. þúsundið fyrir eina sex ára skottu sem er að byrja í skóla. Ofan á það bætist svo úlpa, skór, húfur, vettlingar o.s.frv. (Eins gott að fara að taka fram prjónana). Það þarf klárlega að setja þak (og það lágt) á álagningu á þessar vörur sem við komumst ekki hjá að kaupa á hverjum vetri. Þetta ástand er löngu komið út úr öllu korti og tími kominn til að við hættum að gleypa það sem að okkur er rétt, án þess að hugsa um það tvisvar. Eða í mesta lagi dæsa þegar plastkortið er dregið fram við kassann.



Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×