Innlent

Gaf milljón til þurfandi í Níger

Laufey H. Helgadóttir, 82 ára Þingeyingur sem er búsett í Borgarnesi, gaf á dögunum eina milljón króna til hjálparstarfs Rauða krossins í Níger þar sem hungursneyð ríkir. Óttast er um afdrif allt að átta milljóna manna í Níger og nálægum löndum í Afríku ef ekkert er að gert, einkum vegna mikils næringarskorts meðal barna. „Mér finnst ég gera góðverk með því að gefa fé í svona hjálparstarf. Ég er búin að lesa og sjá svo mikið af myndum af mörgum börnum sem fá ekki að borða. Það er óskaplegt að sjá heilu þjóðirnar svelta, sérstaklega ef maður hugsar um allan þann mat sem fer til spillis hér heima," segir Laufey. Laufey hefur áður gefið fé til hjálparstarfs Rauða krossins. Í byrjun árs gaf Laufey eina milljón króna til stuðnings fórnarlamba fljóðbylgjunnar í Asíu og í fyrra gaf Laufey hálfa milljón króna í söfnunina Göngum til góðs til hjálpar börnum sem búða við ógnir stríðsátaka. „Ég reyni að skipta þessu þar sem ég held að peningarnir komi að gagni. Ég ætlast ekki til þess að fá þakkir fyrir að gefa," segir Laufey. Hungursneyðina í Níger má fyrst og fremst rekja til uppskerubrests, þar sem uppskera síðastliðins árs eyðilagðist vegna þurrka og engisprettufaraldurs. Ástandið er sums staðar mjög alvarlegt en Níger er talið næst fátækasta land í heimi. Alþjóða Rauði krossinn hefur hafið matvæladreifingu til barna undir fimm ára aldri, sem talin eru í mestri hættu. Rauði kross Íslands leggur fram þrjár milljónir króna til hjálparstarfsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×