Innlent

Úttekt nefndar SÞ fagnað

Í úttekt á stöðu mannréttindamála hér á landi gerði nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamisréttis meðal annars athugasemd við niðurskurð til Mannréttindaskrifstofu Íslands. Nefndin telur og æskilegt að stjórnvöld endurskoði ákvæði um 24 ára aldur sem skilyrði dvalarleyfis fyrir maka, hún bendir á að löggjöf skorti sem tryggir einstaklingum kærurétt á grundvelli einkaréttarmála ef þeir telja sig verða fyrir kynþáttamismunun og telur hættu á að brotið verði á réttindum verkamanna þar sem atvinnurekendur eru handhafar atvinnuleyfa fyrir þeirra hönd. "Mér líst mjög vel á skýrsluna," segir Margrét Steinarsdóttir lögfræðingur Alþjóðahússins. "Tillögur þær sem settar eru fram í skýrslunni eru að miklum hluta atriði sem Alþjóðahúsið hefur líka bent á." Hún segir skýrsluna almennt jákvæða í garð aðstæðna hér þótt þar séu birtar athugasemdir og tillögur að úrbótum hér á landi. "Stjórnvöld fá þessa skýrslu og ég er sannfærð um að þau munu skoða hana gaumgæfilega." Guðrún D. Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, tók undir þetta. "Við erum mjög ánægð með þessar athugasemdir því þær endurspegla flest það sem við höfum bent á að betur megi fara. Að sjálfsögðu fögnum við því einnig að nefndin skori á íslensk stjórnvöld að styrkja skrifstofuna á ný og vonumst til að þau taki athugasemdirnar til greina." Björn Bjarnason dómsmálaráðherra tjáði sig ekki efnislega um athugasemdirnar en sagði í tölvupósti til blaðsins: "Allt verður þetta tekið til skoðunar eins og jafnan er gert, þegar ábendingar slíkra aðila berast. Þessi nefnd hefur sérþekkingu á kynþáttamisrétti og skiptir mestu, sem hún hefur um það efni að segja."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×