Innlent

Dregið til baka vegna þrýstings

"Það er bara hollt að stjórnmálamenn skipti stundum um skoðun," segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, en borgarráð samþykkti einróma í gær tillögu Alfreðs Þorsteinssonar um að Reykjavíkurborg falli frá fyrirhuguðum breytingum á gjaldskrá leikskólanna. Gjaldskrá fyrir börn, þar sem annað foreldrið er í námi, mun því ekki hækka. Steinunn segir það hafa verið vegna mikils þrýstings frá stúdentum að ákveðið var að setjast aftur yfir málið. Einnig að í ljósi þess að verið er að vinna að því að koma á gjaldfrjálsum leikskólum hafi verið ákveðið að taka ekki þennan slag. Hrefna Lind Ásgeirsdóttir, sem á sæti í Stúdentaráði segir stúdenta fagna þessari ákvörðun. "Að sjálfsögðu fögnum við þessu, baráttunni er lokið." "Þetta er í samræmi við okkar tillögur sem R-listinn hafði stungið undir stól," segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn. "Við erum því mjög ánægðir með þetta." Ólafur F. Magnússon, oddviti Frjálslyndra segir að ekki hafi þurft að koma til þessi sundrung R-listans til að taka þessa ákvörðun; "Við vorum alfarið á móti þessum hækkunum frá upphafi, sem er í samræmi við stefnu okkar um að lækka eða fella niður þjónustugjöld barnafjölskyldna."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×