Innlent

Salmonella ekki aðeins í kjúklingi

Innflutningur á fersku og frosnu grænmeti til landsins hefur verið takmarkaður vegna hættu á salmonellu. Slíkum tilfellum fjölgar stöðugt í heiminum að sögn forstöðumanns matvælasviðs Umhverfisstofu sem segir fjarri því að veiran greinist einungis í kjúklingum. Umhverfisráðuneytið hefur ákveðið að takmarka innflutning á ákveðnum tegundum af fersku og frosnu grænmeti frá Taílandi. Þær tengundir sem um ræðir eru ferskar kryddjurtir, bananalauf, bambuslauf, rætur og aspas. Elín Guðmundsdóttir, forstöðumaður matvælasviðs hjá Umhverfisstofnun, segir ástæður vera örverumengum, meðal annars salmonellu, sem greinst hefur í þessum vörum. Þær hafa allar verið teknar úr verslunum landsins. Elín tekur þó fram að þetta sé ekki algjört bann því menn megi flytja vöruna inn ef þeir geti sýnt fram á að hún sé í lagi. Þá þurfa verslanir að sýna vottorði frá faggiltri rannsóknarstofu sem sýnir að varan innihaldi ekki salmonellu og að örveruástand hennar sé í lagi. Elín segir salmonellutilfellum hafa fjölgað mjög að undanförnu og því fari fjarri að hún finnist einungis í kjúklingum. Tilvikum í grænmeti hafi að hennar mati fjölgað en fólk eigi kannski ekki von á því þar. Elín segir upplýsingarnar hafa borist í gegnum evrópskt viðvörunarnet sem Ísland er aðili að og er rekið af Evrópusambandinu. Hún segir strangt eftirlit vera hér á landi á innfluttum vörum og sé allt gert til að koma í veg fyrir salmonellusmit.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×