Viðskipti innlent

Þjónusta öll undir einum hatti

Fyrirtækið JÁ hefur verið stofnað til að taka við af upplýsingaþjónustu Símans, hundrað og átján, og reka undir einum hatti þá þjónustustarfsemi sem heyrt hefur undir Símann. Markmið nýja félagsins er að skerpa áherslur í rekstrinum og efla vöruþróun. Hið nýja fyrirtæki JÁ, mun reka upplýsingaþjónustuna 118, annast ritstjórn og útgáfu Símaskrárinnar og halda utan um rekstur vefsvæðisins símaskrá.is. Já er dótturfélag Símans og starfsmenn eru um 140, en flestir starfa við 118. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri JÁ, segir að nafn hins nýja félags sé einfalt og auðvelt í notkun, íslenskt og umfram allt jákvætt. Auðvelt sé að tengja nafnið þeirri þjónustu sem fyrirtækið bjóði. Hún segir að stofnun sérstaks félags um þjónustuþætti Símans, sé í takt við þróunina í nágrannalöndunum. Markmiðið með stofnun félagsins sé að skerpa fókusinn, eins og hún orðar það, en þessi þjónusta hafi verið stoðstarfsemi innan Símans. Með því að draga JÁ út í sérfélag sé stoðstarfsemin gerð að kjarnastarfsemi og þar með sé vonast til þess að koma með fram með meiri nýjungar og meira úrval fyrir viðskiptavini. Aðspurð hvaða breytingar á þessari þjónustu hið nýja fyrirkomulag hafi í för með sér segir Sigríður þær litlar, alla vega til að byrja með. Starfsemin sé nú á fjórum stöðum á landinu, á Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum og í Reykjavík og verði það áfram. Hins vegar verði farið út í vöruþróun og nýjungar og það hafi í för með sér að vinnustaðurinn verði meira spennandi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×