Innlent

Einbýlishús eyðilagðist í bruna

Tveggja hæða hús eyðilagðist í bruna á Siglufirði í nótt. Slökkviliði Siglufjarðar var tilkynnt um eld í gömlu tveggja hæða steinsteyptu einbýlishúsi að Mjóstræti 1 um klukkan tvö í nótt. Að sögn lögreglunnar á Siglufirði var mikill eldur í húsinu þegar slökkvilið kom á staðinn skömmu síðar og logaði út um glugga á neðri hæð. Húsið var til skamms tíma í útleigu en vitað var að leigjendurnir höfðu flutt út fyrir nokkrum dögum og því var ekki óttast að fólk væri í húsinu. Lögreglan segir að eldurinn hafi magnast fljótlega eftir að slökkvilið kom á staðinn og um klukkan hálfþjú voru báðar hæðir hússins alelda. Tæpar tvær klukkustundir tók að ráða niðurlögum eldsins en slökkvistarfi lauk um klukkan sex í morgun. Hægviðri var á Siglufirði í nótt og voru nærliggjandi hús því ekki talin í hættu. Húsið var byggt á árunum 1932 og 1933 og að sögn lögreglu er það líklega ónýtt. Eldsupptök eru ókunn en lögregla segir málið í rannsókn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×