Innlent

Ákært fyrir framleiðslu amfetamíns

Sameinuð voru mál á hendur 34 ára gömlum manni sem setið hefur í gæsluvarðahaldi í rúma fjóra mánuði í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Maðurinn var ákærður fyrir að hóta og svo ráðast á prófessor í réttarlæknisfræði þannig að sá hlaut af nokkur meiðsli í mars á þessu ári. Í gær var sameinað því máli önnur ákæra á hendur manninum og öðrum 43 ára gömlum fyrir að hafa um nokkurt skeið fram til nóvemberloka árið 2003 staðið að framleiðslu amfetamíns í söluskyni. Á heimili eldri mannsins voru gerð upptæk efni og áhöld sem talin voru ætluð til framleiðslunnar, en við fyrirtöku málsins varð nokkur rekistefna um hvað ætla mætti að hægt hefði verið að framleiða mikið. Yngri maðurinn, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi, sagði að um 300 millilítrar af hlaupkenndu efni hafi í raun verið amfetamín á lokastigi vinnslu, en úr því mætti áætla að yrðu 40 til 60 grömm af hreinu amfetamíndufti. Hann vísaði því hins vegar alfarið á bug að tæpir níu lítrar af öðrum vökva hafi verið til framleiðslunnar. Þá vildi hann meina að um tilraunastarfsemi hafi verið að ræða, fremur en stórfellda framleiðslu til sölu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×