Fastir pennar

Lýðræði – ekki lottó

Lýðræðissamfélagið byggist á því að kjósendur kveði upp dóm um verk fráfarandi stjórnenda, votti þeim traust til áframhaldandi stjórnarsetu eða felli þá frá völdum mislíki þeim framganga þeirra á liðnu kjörtímabili. Til þess að svo fari þarf stjórnarandstaðan líka að hafa áunnið sér nægilegt traust kjósenda til þess að þeir telji óhætt að fela henni stjórnartaumana næsta kjörtímabil. Stundum ber svo við að meirihluti kjósenda er í rauninni hundóánægður með framgöngu pólitískra forystumanna á síðasta kjörtímabili, en hefur þó enn minni trú á því að stjórnarandstaðan geti bætt um betur. Þannig vildu margir túlka úrslit síðustu kosninga í Bretlandi í vor leið. Í Þýskalandi hefur reglan verið sú að meginflokkarnir tveir, Sósíaldemókratar og Kristilegir demókratar hafa myndað samsteypustjórn með öðrum hvorum litlu flokkanna, Frjálsum demókrötum og nú Græningjum. Í gamla Vestur-Þýskalandi kom þó fyrir að stóru flokkarnir sátu saman í ríkisstjórn, en það var undantekning og almennt ekki talið æskilegt að svo stór ríkisstjórnarblokk dómíneraði þing og stjórn. Ég hef margsinnis áður rætt það hér í þessum dálkum að kosningar hér á landi eru meira eða minna marklausar og meir í ætt við happdrætti heldur en aðferð til að koma mönnum frá völdum eða til valda. Borgarstjórnarkosningar undanfarin þrjú kjörtímabil hafa þó verið þar undantekning á. Tvær fylkingar hafa þar tekist á, hvor undir forystu fyrirfram ákveðins borgarstjóraefnis og borgarbúar þannig getað gert upp við sig í kosningum hvorri fylkingunni og hvoru borgarstjóraefninu þeir treystu betur á grundvelli reynslunnar og með tilliti til framtíðarfyrirheita. Borgarbúar hafa þannig fyrirfram getað séð hver áhrif atkvæði þeirra hefði á stjórn borgarinnar. Öðru máli gegnir með kosningar til alþingis og þar með um landstjórnina. Þar hefur sá óvani viðgengist áratugum saman, að allir flokkar "ganga óbundnir til kosninga". Það þýðir á mæltu máli að hvorki er kosið um feril undangenginnar ríkisstjórnar né má treysta fögrum fyrirheitum einstakra flokka um það, hvers má vænta komi þeir að landstjórninni. Eftir kosningar hefjast nefnilega hrossakaupin um ráðherrastólana. Og í því karpi öllu má finna ótal (tylli)ástæður og afsakanir fyrir að drekkja öllum fögru kosningaloforðunum í málamiðlunum og sáttaumleitunum. Þetta kallar ekki á ábyrg stjórnmál; endalaust geta pólitíkusar skotið sér undan að axla ábyrgð á einstökum gjörðum og afl kjósandans til að hafa bein áhrif með atkvæði sínu verður hverfandi. Þetta er eins og að spila í lottói. Tilviljun ræður því hvaða tölur koma upp og hver hlýtur vinninginn. Samt kom mér á óvart að jafnreyndur pólitíkus og Guðmundur Árni Stefánsson skyldi gera því skóna í viðtali í Tímariti Morgunblaðsins síðastliðinn sunnudag, að eftir síðustu kosningar hefði verið "raunhæfur möguleiki" í stöðunni að mynda samstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Aðeins "reynsluleysi""Össurar og Ingibjargar Sólrúnar hefði komið í veg fyrir það. "Það var eftirspurn eftir nýju stjórnarmynstri", segir Guðmundur Árni. Það má kannski til sanns vegar færa að svo hafi verið, en meinið var, að mínu viti, að kjósendur höfðu ekki öðlast traust á því að stjórnarandstaðan gæti gert betur. Því gat Framsóknarflokkurinn á síðustu stundu fengið félagshyggjuarm sinn til að halda tryggð við flokkinn og þar með bjargað stjórninni. Það var svo hámark ósvífninnar að um það leyti sem allar skoðanakannanir sýna, að þessi félagshyggjuarmur hefur yfirgefið flokkinn eftir atburði þessa kjörtímabils, þá verður formaður án fylgis forsætisráðherra! Fátt sýnir betur hversu áhrifalitlir kjósendur eru um yfirstjórn landsins. Hitt kom mér jafnvel enn meir á óvart að Stefán Jón Hafstein skyldi lýsa því yfir í fyrri viku, að Samfylkingin gæti vel hugsað sér að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn um stjórn borgarinnar. Um hvað yrði þá kosið í kosningum að vori? Ég hef talið það meginafrek R-listans að hafa gefið borgarbúum kost á því að kjósa sér borgarstjóra og flokk að baki honum eftir hreinum línum. Þótt R-listinn hafi leyst upp í frumparta sína þarf þó ekki að verða nein eftirsjá að honum. Ég tel að það sé borin von að í komandi borgarstjórnarkosningum geti annar hvor stóru flokkanna fengið hreinan meirihluta. Samt geta þeir dregið upp skýrar átakalínur með því að bjóða hvor fyrir sig fram ákveðið borgarstjóraefni og lýst jafnframt yfir að í eftirkaupum við minni flokka að afstöðnum kosningum verði borgarstjórastóllinn ekki lagður undir. Borgarbúar geta þá a.m.k. verið vissir um að með því að kjósa þá eru þeir ekki að kjósa Alfreð sem borgarstjóra! Þingkosningar verða í Noregi síðar í þessum mánuði. Þar hafa að undanförnu setið samsteypustjórnir af ýmsum toga. Nú hefur Verkamannaflokkurinn tekið skýra afstöðu um stjórnarmynstur eftir kosningar og norskir kjósendur geta í fyrsta sinn um lengri tíma kosið milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Í klausu í Fréttablaðinu í gær segir Björgvin G. Sigurðsson alþingismaður: "Annað sem vekur aðdáun mína í kosningabaráttunni í Noregi er að það eru skýrar línur. Það liggur ljóst fyrir hvernig ríkisstjórnin verður samsett eftir kosningar. Kjósendur eiga ekki á hættu að kaupa köttinn í sekknum. Jafnaðarmenn starfa ekki með Hægriflokknum. Þeir mynda ríkisstjórn til vinstri. Svoleiðis eiga sýslumenn að vera." Undir þessi orð ættu allir unnendur virks lýðræðis að geta tekið. Samfylkingunni ber skylda til að gefa kjósendum kost á mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn – ekki að keppa að því að leysa Framsóknarflokkinn af hólmi sem hækja hans, þegar hann þarf á að halda.





×