Innlent

Ósakhæfur fluttur á Sogn

Maður sem í apríl réðst á prófessor í réttarlæknisfræði eftir að hafa hótað honum og setið um hann var í gær dæmdur í öryggisgæslu og fluttur á réttargeðdeildina að Sogni í Ölfusi. Hann var talinn ósakhæfur og refsikröfum í málinu vísað frá. Prófessornum voru dæmdar 310.590 krónur í skaðabætur. Fyrir dómi kom fram að árásin hefði raskað lífi hans mjög og hann væri á eftir þjakaður af martröðum. Við árásina rifbeinsbrotnaði hann, marðist mikið og bólgnaði í andliti. Þrír geðlæknar báru fyrir dómi að sakborningur væri haldinn alvarlegri hugvilluröskun sem lýsti sér í miklum ranghugmyndum á afmörkuðu sviði, þótt að öðru leyti gæti hann virst eðlilegur. Hann taldi sig eiga sökótt við prófessorinn sem hann vildi meina að hafi farið rangt með niðurstöður barnsfaðernismáls. Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður mannsins, sagðist gera ráð fyrir að dómnum yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Beiðni um áfrýjun þarf að koma til ríkissaksóknara innan við fjórar vikur eftir að dómur hefur verið kveðinn upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×