Innlent

Drápsfangi fær 18 mánaða dóm

Sigurður Freyr Kristmundsson, 23 ára gamall maður sem játað hefur að hafa banað manni með hnífi að morgni 19. ágúst, var í gær dæmdur í 18 mánaða fangelsi og sviptur ökuréttindum í mánuð fyrir margvísleg önnur brot. Sigurður situr í gæsluvarðhaldi vegna manndrápsins. Dóminn nú hlaut Sigurður fyrir að taka við stolnum gullhringum í desember í fyrra, fyrir að aka bíl undir áhrifum lyfja og fyrir tékkafals, en upphæð tékkans hafði verið breytt úr 5.000 krónum í 50.000 krónur. Sigurður játaði tékkafalsið fyrir dómi en neitaði því að hann hefði mátt vita að hringarnir sem hjá honum fundust hefðu verið stolnir, en þeir voru enn merktir verðmiðum. Hann var margsaga um hvernig hann komst yfir hringana og þótti dómnum sannað að hann hefði vitað að þeir væru illa fengnir. Sigurður Freyr á langan sakaferil að baki og hefur margsinnis áður verið dæmdur fyrir ýmis brot. Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn í Héraðsdómi Reykjavíkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×