Sport
Teitur Þórðarson næsti þjálfari KR
Teitur Þórðarson verður næsti þjálfari meistaraflokks karla hjá KR. Teitur tekur við liðinu í haust af þeim Sigursteini Gíslasyni og Einari Þór Daníelssyni sem stýrt hafa KR frá því Magnúusi Gylfasyni var vikið frá störfum í lok júlí. Teitur Þórðarson hefur gríðarmikla reynslu af þjálfun hjá norskum úrvalsdeildarliðum, hefur meðal annars þjálfað Lyn, Brann og Lilleström. Teitur Þórðarson hefur lokið UEFA-Pro þjálfaranámskeiði í Noregi en hann varð fyrstur íslendinga til að afla sér þessara þjálfararéttinda. UEFA-Pro þjálfaragráðan veitir Teiti m.a. réttindi til að þjálfa félög í efstu deild í öllum löndum Evrópu sem eiga aðild að þjálfarasáttmála UEFA en þau eru 39 talsins. Teitur Þórðarson var væntanlegur til landsins í kvöld en fyrirhugað er að skrifa undir samkomulag við hann í fyrramálið um þjálfun KR. Þá er blaðamannafundur fyrirhugaður fyrir hádegi þar sem ráðning hans verður kynnt.