Innlent

Stefna olíufélaga þingfest

Stefna olíufélaganna Skeljungs og Olíuverslunar Íslands á hendur samkeppnisyfirvöldum var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan tíu í morgun. Stefna Olíufélags Íslands hefur þegar verið þingfest. Olíufélögin krefjast þess öll að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnisyfirvalda um samráð olíufélaganna verði gerður ógildur. Yrði það niðurstaða héraðsdóms myndu sektir olíufélaganna upp á einn og hálfan milljarð króna falla niður. Sektir á hendur Olís hljóða upp á 560 milljónir króna, Skeljungur er sektaður um 450 milljónir og Essó um 495 milljónir króna. Til vara krefjast olíufélögin þess að sektirnar verði lækkaðar verulega. Stefna Esso var þingfest rétt fyrir þinghlé í lok júní og má búast við því það mál verði sameinað málinu sem þingfest er í dag. Frá þingfestingu fá samkeppnisyfirvöld átta vikur til að skila greinagerð um málið. Að því loknu verður skipaður dómari í málinu. Málflutningur olíufélaganna snýst um það að málsmeðferð samkeppnisyfirvalda hafi verið gölluð. Eins segja olíufélögin engan ávinning hafa orðið af meintu samráði. Til að styðja það ætla félögin að óska eftir að matsmenn verði dómkvaddir. Allt tekur þetta sinn tíma og er því búist við að aðalmeðferð í málinu verði í fyrsta lagi á vordögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×