Innlent

Vilja sektarúrskurð ómerktan

Þingfest voru í gærmorgun mál olíufélaganna Skeljungs og Olís á hendur samkeppnisyfirvöldum í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í júní var þingfest sambærilegt mál Kers. Stefnur félaganna eru keimlíkar, en þau vilja freista þess að fá felldan úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnisyfirvalda um samráð þeirra. Varakrafa er um verulega lækkun, eða niðurfellingu, sektanna sem félögin hafa þegar greitt. Verði úrskurðurinn ómerktur þarf ríkið að endurgreiða Olís 560 milljónir króna, Skeljungi um 450 milljónir og Olíufélaginu Essó um 495 milljónir króna. Eyvindur Sólnes, lögmaður Olís, taldi ekki ólíklegt að mál olíufélaganna yrðu með einhverjum hætti sameinuð fyrir dómi, en nú fengju stjórnvöld hæfilegt ráðrúm til að skila greinargerð um málið. "Ætli það verði ekki einhverjir tveir mánuðir eða svo," sagði hann og bjóst við aðalmeðferð fyrir dómi einhvern tímann með næsta vori.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×