Viðskipti innlent

Gæti orðið keppinautur Flugleiða

Viðræður hefjast í dag um að FL Group, móðurfélag Flugleiða, kaupi dönsku flugfélögin Sterling og Maersk af eignarhaldsfélaginu Fons eins og greint var frá á Vísi í morgun. Sterling gæti orðið skæður keppinautur Flugleiða. Viðræður hefjast í dag og því er framvinda málsins með öllu óljós á þessu stigi. Tilkynnt var um viðræðurnar sama dag og formlega var gengið frá kaupum Sterling á Maersk-flugfélaginu í Kaupmannahöfn í gær. Dönsk blöð greina frá því að í kjölfarið verði hátt í 300 starfsmönnum beggja félaganna sagt upp vegna samlegðaráhrifa. Jafnframt að verulega hafi dregið úr taprekstri Sterling á síðasta ári og að reksturinn sé kominn í gott jafnvægi það sem af er þessu ári. Sterling flýgur til 90 áfangastaða víða um Evrópu og þegar hefur komið fram að nýir eigendur félagsins hafa áhuga á að hefja Ameríkuflug og bjóða upp á þessa tengiflugsmöguleika um Evrópu. En þeir gætu rétt eins nýst Flugleiðum á sama hátt í tengslum við Norður-Atlantshafsflug félagsins. Ef ekki yrði af kaupum FL Group á Sterling gæti Sterling þannig orðið skæður keppinautur á þeirri leið. Pálmi Haraldsson, einn aðaleigandi Fons og þar með Sterling, sagði í viðtali við Ríkisútvarpið í morgun að fleiri en FL Group hefðu sýnt áhuga á að kaupa Sterling og væri öll framvinda mála óljós á þessu stigi. Þá greina dönsk blöð frá því í morgun að SAS-flugfélagið hafi áhuga á að kaupa vöruflutningaþátt Maersk-félagsins út úr Sterling. Ekki náðist í Hannes Smárason, stjórnarformann FL Group, fyrir hádegisfréttir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×