Viðskipti innlent

Landsbankinn lækkaði um 6%

Talsverð niðursveifla varð á verði fyrirtækja í Kauphöllinni í morgun og lækkaði Landsbankinn tímabundið mest, eða um rösklega sex prósent. Lækkunin hafði þó gengið til baka að hluta og var 4,4 prósent klukkan hálftólf. Marel lækkaði líka um tæp fimm prósent og Össur, Bakkavör, Burðarás og Icelandic Group, sem áður hét SÍF og SH, lækkuðu öll um rúm þrjú prósent. Úrvalsvísitalan lækkaði þannig og var um 4.500 stig klukkan hálftólf. Að sögn Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallarinnar, eru þessar sveiflur eðlilegar í ljósi mikilla hækkana upp á síðkastið og megi sjálfsagt að hluta rekja til þess að einhverjir séu að innleysa hagnað. Til enn lengri tíma litið sé þetta líka eðlilegt því úrvalsvísitalan hafi hækkað um 34 prósent frá áramótum. Það er að öllum líkindum mesta hækkun sem orðið hefur í öllum vestrænum kauphöllum frá áramótum. Ekkert íslenskt fyrirtæki í Kauphöllinni hækkaði í verði í morgun en nokkur stóðu í stað.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×