Sport

Smith tekur stöðu Keane

Alex Ferguson hyggst tefla Alan Smith fram í stöðu fyrirliðans Roy Keane hjá Manchester United í leiknum gegn Villareal í Meistaradeildinni í kvöld, þar sem framherjinn knái Diego Forlan mætir sínum gömlu félögum. "Ég kunni alltaf vel við Forlan," sagði Ferguson. Hann er góður maður og það var alltaf jákvætt og gott andrúmsloft í kring um hann í búningsklefanum. Ég varð samt að láta hann fara frá félaginu á sínum tíma, því hann var að verða leiður á því að fá ekki fast sæti í liðinu. Mér hafa aldrei dulist hæfileikar hans og hann hefur staðið sig virkilega vel á Spáni," sagði Ferguson, en koma Alan Smith á Old Trafford varð ekki síst til þess að hasta brottför Forlan þaðan á sínum tíma. Nú lítur út fyrir að Alex Ferguson muni ætla að tefla Smith fram í stöðu Roy Keane sem afturliggjandi miðjumaður í kvöld og virðist ætla Smith að taka við því hlutverki til frambúðar þegar sá írski leggur skóna á hilluna. Þetta var upphaflega ætlað sem tilraun, en Smith virðist hafa sýnt að hann valdi þessu nýja hlutverki nokkuð vel, því Ferguson íhugar að festa hann á miðjunni í ljósi þess að Keane verður frá vegna meiðsla á næstunni. "Þegar ég spurði Smith hvort hann langaði að prófa þetta, tók hann strax vel í það. Hann á enn eftir að aðlagast þessu nýja hlutverki í andlegum skilningi, en hann mun þroskast eftir því sem hann fær fleiri verkefni og Riquelme hjá Villareal er einmitt gott dæmi um það, hann er handfylli fyrir hvern sem er," sagði Ferguson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×