Ívar skoraði sigurmark Reading
Ívar Ingimarsson var hetja Reading í ensku 1. deildinni í fótbolta í dag en hann skoraði sigurmark liðsins í 1-0 sigri á Crewe á 81. mínútu. Ívar lék að venju allan leikinn í liði Reading eins og Brynjar Björn Gunnarsson. Jóhannes Karl Guðjónsson lék allan leikinn með Leicester sem gerði markalaust jafntefli við Wolves á útivelli en honum tókst að krækja sér í gult spjald á 78. mínútu. Gylfi Einarsson lék allan leikinn með Leeds sem vann QPR, 0-1 á útivelli en Bjarni Guðjónsson sat allan tímann á varamannabekk Plymouth sem vann Burnley 1-0. Sheff Utd er efst með 24 stig, Reading í 2. sæti með 20 stig, Watford í 3. sæti með 17 stig, Luton í 4. sæti með 17 stig, Stoke í 5. sæti með 16 stig og Leeds í 6. sæti með 14 stig.