Innlent

Fjalla á um möguleg brot Hannesar

Héraðsdómur Reykjavíkur á að taka til efnismeðferðar kröfur Auðar Laxness á hendur Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, aðrar en bótakröfur, samkvæmt úrskurði Hæstaréttar í gær. Krafist var um 7,5 milljóna króna í bætur vegna meintra höfundarréttabrota Hannesar við ritun bókarinnar Halldór. Ómerktur var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá því 9. júní í sumar þar sem málinu var vísað frá og Auði gert að greiða Hannesi hálfa milljón króna í málskostnað. Hæstiréttur beinir því til héraðsdóms að fjallað verði um möguleg brot Hannesar á 54. grein laga um höfundarrétt. "Enda þótt fallist verði á með héraðsdómara að í stefnu sé lýsing málsástæðna ágripskennd er þess að gæta, að krafa sóknaraðila er einkarefsikrafa. Verður í því ljósi að telja sóknaraðila hafa með framangreindum hætti sett fram nægilega skýrlega í hverju ætluð brot varnaraðila felist," segir í úrskurði Hæstaréttar og áréttað að ekki verði gerðar sömu kröfur um framsetningu stefnu í einkarefsimáli og gerðar eru til opinberrar ákæru.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×