Viðskipti innlent

Methagnaður hjá sparisjóðum

Methagnaður varð á rekstri sparisjóðanna og Sparisjóðabankans á fyrri hluta ársins 2005, en alls nemur hagnaðurinn 4.582 milljónum króna eftir skatta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sparisjóða. Hagnaðurinn á fyrstu sex mánuðum ársins er aðeins sex prósentum minni en hann var allt árið 2004 en þá var hann ríflega 4,8 milljarðar króna. Heildareignir sparisjóðanna voru í lok uppgjörtímabilsins tæplega 318 milljarða króna og höfðu þær aukist um 38 milljarða króna frá áramótum. Eigið fé í ársbyrjun nam 28 milljörðum króna. Arðsemi eigin fjár á fyrri hluta þessa árs er 32,7 prósent. Athyglisvert er að arðsemi minnstu sparisjóðanna er sambærileg við þá stærstu. Sparisjóðirnir á Íslandi eru alls 23 og starfsmenn þeirra um 900 talsins. Sparisjóðirnir þjóna á milli 60 og 70 þúsundum einstaklinga eða sem nemur fjórðungi allra viðskiptavina á einstaklingsmarkaði. Sparisjóðirnir hafa undanfarin sex ár komið best út allra fjármálafyrirtækja í Íslensku ánægjuvoginni, viðamikilli könnun IMG Gallup á viðhorfum landsmanna til 25 fyrirtækja í mismunandi atvinnugreinum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×