Innlent

Björguðu manni af skútu í háska

Áhöfn stóru þyrlu Landhelgisgæslunnar tókst í morgun með harðfylgi, að bjarga manni af skútu í sjávarháska á milli Íslands og Grænlands, en félagi hans fannst ekki og er talinn af. Sendingar frá neyðarsendi skútunnar fóru að heyrast upp úr klukkan hálfeitt og hófst nánari eftirgrennslan þá þegar. Þegar hún bar ekki árangur og skipverjar svöruðu ekki kalli á öllum hugsanlegum rásum var stóra þyrla Landhelgisgæslunnar send af stað og Fokker-vél Gæslunnar skömmu síðar og fann hún skútuna á reki um 90 sjómílur norðvestur af Straumnesi. Vísaði hún þyrlunni á staðinn og tókst björgunarmönnum að ná skipverjanum um borð um klukkan hálfníu þrátt fyrir að vindhraðinn væri yfir 30 metrar á sekúndu, ölduhæðin rúmlega átta metrar og skyggni afleitt. Það dró úr hættu við aðgerðina að mastrið á skútunni var brotið. Strax að björgun lokinni og ljóst var að félagi mannsins hafði fallið fyrir borð um miðnætti hélt þyrlan áleiðis til lands en áhöfn Fokkersins leitaði dágóða stund að hinum skipverjanum,en án árangurs. Hann er talinn af enda sjávarhiti við frostmark og mennirnir voru ekki í góðum flötgöllum. Þyrlan lenti með skipverjann, sem er bandarískur, í Reykjavík á tólfta tímanum, en maðurinn sem talinn er af var Skoti. Skútan hélt frá Íslandi í síðasta mánuði og ætlaði upp með austurströndinni eins langt og komist yrði fyrir ís og svo aftur til baka til Reykjavíkur. Hún mun hafa verið á baka leiðinni þegar hún hreppti ofsaveðrið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×