Innlent

Barin fyrir að kvarta undan látum

Mynd/Vísir
Kona á sjötugsaldri varð fyrir líkamsárás í Vestmannaeyjum eftir að hún hafði kvartað undan partílátum og næturhávaða aðfararnótt sunnudags. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Vestmannaeyjum varð kona á sjötugsaldri fyrir fólskulegri líkamsárás aðfararnótt sunnudags. Lögreglan segir málið enn vera í rannsókn og að atburðarás sé frekar óljós en þó er ljóst að til stympinga kom milli konunnar og fjögurra ungmenna sem búa í sama fjölbýlishúsi. Ellefu ára gamalt barnabarn konunnar var statt hjá henni á meðan á árásinni stóð en þó er ekki talið að það hafi verið vakandi. Lögreglan segir að búið sé að yfirheyra sex ungmenni sem voru á staðnum. Tildrög árásarinnar eru þau að konan hafði kvartað undan hávaða við eiganda íbúðar á hæðinni fyrir ofan sig. Íbúðareigandinn býr ekki sjálfur í íbúðinni en í kjölfar kvörtunarinnar virðist sem ungmenni sem stödd voru í íbúðinni hafi ruðst inn til konunnar og veitt henni áverka sem meðal annars leiddu til þess að konan var flutt á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja til skoðunar og samkvæmt vef Eyjafrétta er talið að hún hafi slasast á baki. Konan er útskrifuð af sjúkrahúsinu og ekki er vitað nánar um áverka. Lögreglan í Vestmannaeyjum benti á í þessu samhengi að oft væri skynsmalegt fyrir fólk sem teldi sig þurfa að kvarta vegna partíláta eða næturhávaða að hafa frekar samband við lögreglu en húsráðendur þar sem fólk er oft í misjöfnu ástandi til þess að jafna ágreining um miðja nótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×