Sport

Mourinho hugsar enn um "markið"

NordicPhotos/GettyImages
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur nú enn vakið athygli á þeirri ósk sinni að tekinn verði upp búnaður til að ákvarða hvort boltinn fer inn fyrir línuna í leikjum á Englandi og í Meistaradeildinni, eftir að lið hans féll úr Meistaradeildinni í fyrra á vafasömu marki á Anfield. "Ef slík tækni væri notuð, myndi hún koma í veg fyrir ranga dóma í leikjum þar sem milljónir punda eru í húfi. Ég var mjög ósáttur við þetta mark á sínum tíma, en ég hef jafnað mig á þessu núna. Við féllum úr keppni og ég sætti mig við það - en leikurinn á Anfield fór 0-0 og ég mun aldrei falla frá þeirri skoðun minni," sagði Mourinho. Aðstoðardómarinn sem flaggaði markið á sínum tíma, Roman Slysko, stendur fast á sínu og heldur því statt og stöðugt fram að hann hafi tekið rétta ákvörðun. Hann á þó ekki von á því að dæma leiki Chelsea á næstunni. "Það yrði litið á það sem ögrun við liðið og ég held að það væri afar óheppilegt. Ég er þó viss um að ég tók rétta ákvörðun og ég mun standa við hana, ég sé ekki eftir neinu," sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×