Innlent

Morgunblaðið birti einkapósta

Össur Skarphéðinsson, fyrrum formaður Samfylkingarinnar, og Gunnlaugur Sigmundsson, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins, hafa báðir orðið fyrir því að einkapóstar sem þeir sendu hafi birst á síðum Morgunblaðsins án þeirra leyfis. Sunnudaginn 10. maí 1998 birtist tölvupóstur sem Gunnlaugur sendi þingmönnum á innra neti þingsins orðrétt í Morgunblaðinu. Hann segist ekki hafa haft vitneskju um að til stæði að birta póstinn því ekki hafi verið haft samband við hann áður en pósturinn vart birtur í Morgunblaðinu. "Ég var mjög ósáttur við þessa birtingu á sínum tíma," segir Gunnlaugur. Þá birti Morgunblaðið 15. nóvember 2002 bréfaskipti Norðurljósa og Landsbankans vegna fjárhagsstöðu Norðurljósa og lánamála félagsins. Össur skrifar á heimasíðu sinni að Styrmir hneykslist manna mest á birtingu Fréttablaðsins á einkatölvupóstum. Styrmir hafi líklega gleymt að hann hafi sjálfur birt einkapóst úr tölvu, vitandi að það væri bæði í óþökk sendanda og viðtakenda. "Fréttablaðið rennur því í einskis manns slóð í því efni nema hans sjálfs," segir Össur. Þegar Össur var beðinn um að skýra við hvaða einkapóst hann ætti, sagði hann: "Ég á við einkabréf mitt sem ég sendi til tveggja viðtakanda. Annar var góður vinur föður míns til margra áratuga og hinn kunningi minn sem ég hafði haft töluverð samskipti við um málefni Baugs. Tölvupóstur þessi komst í hendur Styrmis. Hér var um einkabréf að ræða og bæði ég og viðtakendur gerðum Morgunblaðinu ljóst að við værum mótfallnir birtingu," segir Össur. "Styrmir, sem hafði nær öll samskipti af blaðsins hálfu við mig vegna þessa máls, tjáði mér að hann hefði skilning á þessu viðhorfi en hann teldi málið þess eðlis að það ætti erindi við lesendur blaðsins þar sem um væri að ræða harkaleg ummæli formanns stjórnmálaflokks til umsvifamikils athafnamanns. Rétt er að taka fram að málið varðaði að öllu leyti persónuleg málefni sem tengdust minni fjölskyldu," segir hann. "Mótmæli mín við þetta urðu veik þar sem í hjarta mínu þá gat ég ekki annað en fallist á rök Styrmis og ég hef aldrei áfellst hann síðan," segir Össur. Á heimasíðu sinni segir Össur: "Ritstjóri Morgunblaðsins varði það þá með nákvæmlega jafn góðum og sannfærandi rökum og Fréttablaðið ver sig núna fyrir hneykslun hans. Styrmir hafði rétt fyrir sér þá einsog hann hefur rangt fyrir sér núna. Munurinn er sá, að nú er hann einn af málsaðiljum - og ritstjóri Morgunblaðsins verður að skýra fyrir lesendum og starfsmönnum afhverju þá gilda önnur prinsipp."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×