Sport

Loeb nálægt titlinum

NordicPhotos/GettyImages
Franski ökuþórinn Sebastien Loeb, sem ekur á Citroen, getur tryggt sér heimsmeistaratitilinn í rallakstri um helgina, þegar keppt verður á eyjunni Hokkaido í Japan. Hann er staðráðinn í að láta dauðaslysið í Wales á dögunum ekki hafa áhrif á sig, en viðurkennir að allir séu enn harmi slegnir eftir atburðinn. Loeb var með góða forystu í Wales þann 18 september síðastliðinn, þegar aðstoðarmaður Peugeot, Michael Park, lét lífið í keppninni eftir að bíll hans og Markko Martin ók á tré á einni sérleiðinni. Loeb ákvað að halda ekki áfram keppni, því hann vildi ekki verja heimsmeistaratitil sinn undir slíkum kringumstæðum. "Við verðum að reyna að einbeita okkur að rallinu í Japan, því mig langar að verja titilinn, en því er ekki að neita að hugurinn reikar oft aftur til Wales," sagði Frakkinn. "Við verðum að einbeita okkur að akstrinum þegar í keppnina er komið, því Japansrallið er líka hættulegt," sagði hann. Loeb er með 99 stig í keppni bílasmiða og hefur unnið átta af tólf keppnum ársins, sem er ótrúlegur árangur. Hann er aukinheldur 34 stigum á undan næsta manni, Petter Solberg, og nægir þriðja sætið um helgina til að verða meistari. "Ef tekið er mið af því hvernig ég hef verið að keyra í ár, held ég að mér ætti að takast að vinna titilinn í ár, en vegirnir í Japan eru mjög þröngir og hraðir, þannig að ég verð að fara varlega. Allir eru að reyna að gleyma atvikinu í síðustu keppni, en ég held að enginn geti það alveg," sagði Loeb.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×