Innlent

Meint brot ekki fyrnd

MYND/Róbert
Meint brot einstaklinga í tengslum við Lífeyrissjóð Austurlands, sem varða almenn hegningarlög, eru ekki fyrnd, þótt meint brot stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og endurskoðanda sem varða við lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða séu fyrnd. Sagt var frá því í fréttum fyrir helgi að kærendum í málinu hefðu verið gefin þau svör að meint brot væru öll fyrnd í meðförum efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra. Sú fullyrðing byggðist meðal annars á upplýsingum frá Hrafnkatli A. Jónssyni, fyrrverandi formanni stjórnar lífyeirssjóðsins. Jón H. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildarinnar segir að þetta sé ekki rétt. Málið skýrist á mismunandi fyrningarreglum afbrota. Í tilkynningu sem embættið sendi fréttastofunni segir: „Atvik þau sem til rannsóknar eru vegna lánveitinga og ráðstafana fjármuna Lífeyrissjóðs Austurlands áttu sér stað á árunum 1992 til 24. maí 2000. Þegar kæra barst efnahagsbrotadeild í apríl 2003 voru sakir vegna ætlaðra brota stjórnenda og eða stjórnarmanna, samkvæmt lögum um lífeyrissjóði, fyrndar ári áður, hafi þær einhverjar verið.“ Brot á þessum lögum geta að hámarki varðað eins árs fangelsi og fyrnast á tveimur árum. Jón H. Snorrason segir hins vegar að meintar sakir vegna ætlaðra brota gegn almennum hegningarlögum, sem til rannsóknar eru hjá efnahagsbrotadeildinni, séu ekki fyrndar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×