Innlent

Ferðafrelsi flóttamanna verði heft

Á að hefta ferðafrelsi þeirra sem leita eftir hæli hér á landi sem flóttamenn? Fulltrúi sýslumanns telur það hljóta að koma til álita, þar sem það færist í vöxt að glæpamenn misnoti kerfið og gangi lausir hér á landi meðan hælisumsókn er afgreidd. Maður kom hingað til lands fyrir hálfum mánuði á fölsuðum skilríkjum og bað um hæli. Hann var á föstudag dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir skjalafals. Við eftirgrennslan kom í ljós að hann er grunaður um morð í heimalandi sínu, Grikklandi. Þá var hann búinn að ganga laus hér á landi í tvær vikur. Eyjólfur Kristjánsson, fulltrúi sýslumanns á Keflavíkurflugvelli, segir að það sé ákveðið áhyggjuefni að fólk í fyrsta lagi misnoti með þessum hætti flóttamannasamninginn og í öðru lagi að inn í landið sé að koma fólk sem lögregluyfirvöld hafi engin deili á. Sú hætta er uppi að hingað til lands komi fólk sem almenningi og hugsanlega íslenska ríkinu kann að stafa hætta af þar sem að bakgrunnur viðkomandi er gjörsamlega óþekktur. Það er hugsanlegt að það þurfi að skoða hvort það þurfi ekki með einhverjum hætti að hefta ferðafrelsi þessara aðila. Maðurinn situr væntanlega inni næstu þrjár vikurnar, en líklegt þykir að grísk yfirvöld krefjist framsals.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×