Ramsey fékk 18 mánaða fangelsi
Scott Mckenna Ramsey var dæmdur í átján mánaða fangelsi, þar af fimmtán mánuði skilorðsbundið, í héraðsdómi Reykjaness í dag fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til mannsbana. Hann var einnig dæmdur til að greiða rúmlega tvær milljónir króna í skaða- og miskabætur. Scott Mckenna Ramsey var ákærður fyrir að hafa slegið danska hermanninn Flemming Tolstrup hnefahöggi í hálsinn á skemmtistaðnum Traffic í Keflavík í nóvember í fyrra með þeim afleiðingum að slagæðin rifnaði og blæðing sem Flemming hlaut milli heila og heilahimna leiddi hann til dauða. Ramsey viðurkenndi strax á vettvangi að hafa slegið hann og sagði ástæðuna þá að Flemming hefði stöðugt verið að áreita sambýliskonu hans. Fyrir dómi játaði Ramsey brotið skýlaust og þótti sannað að andlát Flemmings hefði verið bein afleiðing hnefahöggsins sem hann veitti honum. Ramsey er skoskur og hefur verið búsettur hérlendis, en hann lék meðal annars knattspyrnu með Grindavík og KR. Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að Ramsey eigi engan sakaferil að baki. Segir að við mat á refsingu hafi meðal annars litið til þess að ákærði hafi ekki haft ásetning til þess að vinna Flemming slíkt tjón sem raunin varð og að afleiðingar hnefahöggsins hafi orðið mun alvarlegri en höggið hafi gefið tilefni til. Hins vegar var ekki litið fram hjá hinum alvarlegu afleiðingum sem hlutust af brotinu. Héraðsdómur taldi hæfilega refsingu átján mánaða fangelsi, en rétt þótti að skilorðsbinda 15 mánuði af henni. Dómurinn dæmdi Ramsey einnig til að greiða foreldrum hins látna rúmlega tvær milljónir króna í skaða- og miskabætur.