Innlent

Bauðst tvisvar til að aðstoða

Lögregla hafnaði boði vaktmanns á vegum skemmtibátafélagsins Snarfara um aðstoð nóttina sem sjóslysið varð á Viðeyjarsundi, aðfaranótt 10. september. Hafþór Lyngberg Jónsson, formaður Snarfara, segist hafa rætt atvikið við yfirlögregluþjón rannsóknardeildar lögreglu í Reykjavík og fengið þau svör að atvikið yrði skoðað. Í slysinu fórust maður og kona, en hjón, eigendur bátsins, komust af með tíu ára son sinn. "Vaktmaður okkar var á svæðinu þegar fyrstu björgunarmenn komu með gúmbát niður í Snarfarahöfn. Hann bauð strax fram aðstoð sína," segir Hafþór og bætir við að um hálftíma síðar hafi vaktmaðurinn boðið fram aðstoð sína öðru sinni þegar kom meira björgunarlið með tvo báta. "En það var aftur afþakkað," segir hann. Hafþór segist ekki vilja fullyrða um hverju það hefði breytt ef aðstoðin hefði verið þegin. "En það breytir ekki því að hér erum við með vakt, einmitt til þess að aðstoða fólk í nauðum og höfum oft gert það." Þá bendir hann á að hraðbátur félagsins sem boðinn var til leitarinnar sé átta metra langur og búinn ljóskastara. "Hann er miklu betri en þessir gúmbátar sem hinir hafa yfir að ráða." Vaktmaður er í Snarfarahöfn frá því starfsemi félagsins hefst í marsbyrjun og staðin er vaktin frá ellefu að kvöldi til sex á morgnana fram í miðjan október.Ekki náðist í Hörð Jóhannesson, yfirlögregluþjón í Reykjavík, í gærkvöldi vegna málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×