Innlent

Rúta út af vegi

Kalla þurfti á björgunarsveit þegar rúta með 50 grunnskólabörn frá Höfn í Hornafirði fór út af veginum við Oddsskarð, Eskifjarðarmegin, um tíuleytið í fyrrakvöld. Engin slys urðu á farþegunum. Atvikið átti sér stað rétt fyrir ofan göngin um Oddsskarð eftir að snjóað hafði skyndilega í efstu brekkunum. Rútan var á leið á fjarðarball hjá grunnskólabörnum á Austfjörðum sem var haldið í Neskaupstað. Alls komust tíu rútur á leiðarenda en rútunni sem fór út af veginum var snúið við aftur til Hornafjarðar. Misstu krakkarnir því af ballinu. Að sögn lögreglunnar í Neskaupstað þurfti stóran bíl til að draga rútuna aftur upp á veginn en björgunaraðgerðirnar gengu vel. Rútan var ekki á keðjum og hafði engar keðjur meðferðis. Vegna óhappsins lokaðist umferð um Oddsskarð um tíma. Umferðin opnaðist síðan fyrir vetrarbúna bíla enda var hálkan og snjókoman mikil.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×