Innlent

Skilorðsdómur fyrir fjárdrátt

Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi í gær fyrrverandi framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfirðinga í tíu mánaða fangelsi, sem er skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir fjárdrátt í opinberu starfi. Manninum var gefið að sök að hafa dregið sér ríflega sautján milljónir króna í starfi sínu sem framkvæmdastjóri Fjórðungssambandssins frá byrjun árs 2002 til miðs september 2003. Fram kemur í dómnum að ákærði hafi viðurkennt fjárdráttinn en hann mótmælti því að hann hefði verið í opinberu starfi. Þá segir einnig í dómnum að ákærði hafi endurgreitt féð sem hann dró sér að verulegu leyti á umræddu tímabili og hann hafi nú lokið við að endurgreiða það allt. Það verði honum hins vegar til þyngri refsingar að hann hafi brotið af sér í opinberu starfi og að fjárhæðin hafi verið há og því þykir tíu mánaða dómur, skilorðsbundinn til þriggja ára, hæfilegur. Auk þess var ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, alls 160 þúsund krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×