Innlent

Eykur eftirlit vegna rjúpnaveiða

Lögregla um allt land hyggst auka eftirlit sitt vegna þess að rjúpnaveiðar hefjast á morgun að nýju eftir tveggja ára hlé. Veiðimenn á Vesturlandi eru varaðir við því að á sama tíma og þeir halda til veiða leita bændur fjár. Ríkislögreglustjóri hefur hvatt alla lögreglustjóra á landinu til að efla eftirlit með skotveiðimönnum í sínu umdæmi og hann hefur m.a. styrkt lið sitt á Suðvesturlandi og Norðurlandi á meðan á veiðitímabilið stendur, eða til 15. nóvember. Þá mun Ríkislögreglustjóri njóta aðstoðar Landhelgisgæslunnar sem mun fljúga yfir veiðilendur á annarri þyrlu sinni og fylgjast með að lög séu virt. Svipað verður uppi á teningnum á Miðvesturlandi en þar verður lögregla með eftirlit í Dalasýslu og Borgarfirði og hafa sýslumannsembættin í Borgarnesi og í Búðardal með sér samstarf af þeim sökum, en auk bíla verður flugvél notuð til eftirlits. Lögregla á þessum slóðum vekur athygli veiðimanna á því að þriðju leitir fara fram í Suðurdölum í Dalabyggð á morgun og sömuleiðis verða leitir hjá Mýramönnum og Borgfirðingum á sama tíma. Leitað verður á vinsælu rjúpnaveiðisvæði og eru veiðimenn beðnir um að sýna tillitssemi og varúð á þessu landsvæði. Þá greindi Bæjarins besta frá því að öll skotveiði hefur verið bönnuð á eignarjörðum Vesturbyggðar öðrum en einstaklingum sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu frá og með morgundeginum. Sama gildir um nokkrar jarðir í Mývatnssveit. Lögregla brýnir einnig fyrir veiðimönnum að leita leyfis hjá bændum til veiða á landi þeirra og vekur hún sérstaklega athygli á því að fjalllendi er stundum háð eignarrétti líka þannig að þar þarf einnig að fá leyfi til veiða. Einnig er minnt á að utanvegaakstur er bannaður og sama gildir um veiðar á hvers kyns tækjum, eins og vélsleðum og fjórhjólum. Sú skylda hvílir á veiðimönnum að kynna sér hvar veiði er leyfð á hverjum stað og þá ber þeim einnig að fylgjast með því hvort breytingar eru gerðar á reglugerðum og lögum um veiðar á meðan á veiðitímabilinu stendur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×