Innlent

Borgin hótar lögsókn

Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri segir standa af hálfu borgarinnar að farið verði með samráðsmál olíufélaganna fyrir dómstóla fá borgin ekki greiddar bætur.Í gær rann út frestur sem Reykjavíkurborg gaf olíu­félög­unum til greiðslu bóta vegna verðsamráðs sem þau höfðu í tengslum við tilboðsgerð vegna olíu­sölu árið 1996. Steinunn Valdís sagðist vita til þess að olíufélögin hefðu ósk­að eftir fundi með lögmanni borg­ar­innar til að fara yfir málið, en hafði í gær ekki frekari spurnir af þeim fundahöldum þar sem hún var stödd í útlöndum. Kristinn Hallgrímsson lög­maður Kers, sem á Esso, segir að borgin fái frá félaginu formlegt svar, vegna skaðabótakröfunnar, en vildi ekki upplýsa um efni þess áður en því hefði verið komið í réttar hendur. Hann segir félagið ekki hafa átt í neinum viðræðum við borgina vegna skaðabótakröfunnar. Gestur Jónsson, lögmaður Skeljungs, segir hins vegar að haldinn verði fundur lögmanna olíufélaganna og lögmanns borgarinnar eftir helgina vegna málsins. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður borgarinnar, segist ekki hafa fengið formlegt svar frá neinu félaganna vegna skaðabótakröfunnar en staðfesti að félögin hefðu óskað eftir fundi með honum í næstu viku vegna málsins. Vilhjálmur sagði að skýrast myndi í næstu viku hvað félögin ætluðu að bjóða borginni, ef þá nokkuð.  "En ítrustu kröfur borgarinnar hljóðuðu upp á 150 milljónir króna," segir hann, en sú upphæð var ekki sundurgreind á félögin. "Borgin getur ekki skipt því niður á félögin því hún veit ekki hver fékk hvað. Hins vegar liggur fyrir að haft var samráð um útboðið og að Skeljungur greiddi hinum ákveðna fjárhæð vegna viðskiptanna."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×