Innlent

Vatnsyfirborð nær upp að vegi

Lögreglan á Höfn hefur í dag kannað ástand vega á leiðinni til Reykjavíkur. Að sögn hennar er töluverður vöxtur í ám og nær vatnsyfirborðið á nokkrum stöðum í umdæmi hennar upp að þjóðveginum. Þó mun vera óhætt að aka þar um en fólki er bent á fara með gát. Þá er búið er að opna veginn um Hvalnes og Þvottárskriður, en hann var lokaður lengi dags. Vegurinn milli Breiðdalsvíkur og Djúpavogs hefur einig verið opnaður en hann var lokaður vegna vatnavaxta. Vegfarendur eru þó beðnir um að aka þar um með gát. Mikill vatnselgur er á götum Hafnar í Hornafirði og hefur víða flætt inn í kjallara húsa. Rignt hefur látlaust síðan í gærmorgun og mældist sólarhringsúrkoma í Akurnesi 149 millímetrar. Að sögn Helga Má Pálssonar, bæjarverkfræðings á Höfn, hafa bæði bæjarstarfsmenn og slökkvilið unnið að því að dæla vatni bæði upp úr kjöllurum og úr lögnum sem anna engan veginn vatnsflaumnum en auk þess stendur yfir háflóð sem dregur úr rennslinu í fráveitukerfi bæjarins. Slíkur var vatnsflaumurinn í bænum að vatn var sums staðar eins metra hátt og sigldu bæjarbúar um á bátum. Helgi telur að flætt hafi inn í á bilinu tíu til fimmtán hús og vinna um fimmtán manns að því að dæla vatninu burt. Samkvæmt veðurspá á að draga úr úrkomunni á næstu klukkustundum en hins vegar er spáð mikilli rigningu aftur á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×