Innlent

Flestir fara að lögum og reglum

Rjúpnaveiðiðimenn virðast flestir hafa farið að lögum og virt tilmæli um hóflegar veiðar þann sólarhring sem liðinn er af veiðitímabilinu, en misjafnlega hefur viðrað til veiða á landinu. Lögreglumönnum um allt land sem fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar hefur rætt við í morgun ber flestum saman um að veiðarnar hafi farið vel af stað og veiðimenn almennt virt þau boð og bönn sem gilda um veiðarnar. Þó handtók lögreglan í Vík í Mýrdal fjóra menn í gær eftir að landeigandi hafði tilkynnt um að þeir væru við veiðar á landi hans án heimildar. Við skýrslutöku og yfirheyrslur kom í ljós að tveir mannanna voru ekki með veiðikort og var annar þeirra með útrunnið skotvopnaskírteini. Lögregla lagði hald á rjúpnafeng þeirra ásamt skotvopnum en málið verður sent sýslumanni sem ákveður hvort kært verður í því. Töluverður fjöldi rjúpnaveiðimanna var á ferð um uppsveitir Árnessýslu í gær og hafði lögregla á Selfossi eftirlit með þeim. Lögreglu barst ein tilkynning um skyttu á veiðum á óleyfilegum stað og þegar betur var að gáð hafði hún ruglast og farið öfugum megin girðingar sem skilur að veiðisvæði og bannsvæði. Þá var björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni kölluð út til að aðstoða rjúpnaveiðimann sem hafði fest bíl sinn en greiðlega gekk að losa hann. Skilyrði til veiða á þessum slóðum eru ekki eins góð í dag og í gær, en nokkur úrkoma og þoka er á svæðinu. Í umdæmi lögreglunnar í Borgarnesi voru margir á veiðum og kannaði lögregla pappíra hjá um 75 manns á Holtavörðuheiði, í Hítardal, Kaldadal og á Uxahryggjum. Þá segir lögreglan í Búðardal að töluverður fjöldi manna hafi verið þar á veiðum í gær og höfðu menn veitt á bilinu 8 til 30 rjúpur. Lögregla beinir þeim tilmælum til veiðimanna í Bröttubrekku að kanna vel hvaða land er í einkaeign og hvað í almannaeigu áður en þeir halda á veiðar. Í Dölunum viðrar annars vel til veiða. Annars staðar á landinu virðist minna um veiðimenn og spila veður og færð þar inn í, þar á meðal í umdæmi lögreglunnar á Blönduósi þar sem rignt hefur töluvert og veiðilendur eru erfiðar yfirferðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×